Húlladúllan sirkusnámskeið

Húlladúllan heimsækir Hvammstanga aftur í ár og býður upp á vikulangt sirkusnámskeið fyrir börn 8 ára og eldri. Við munum kynnast töfrum sirkuslistanna og læra að setja saman stutt sirkus- og trúðaatriði, bæði ein og í samvinnu við félaga okkar. Sirkuslistirnar styrkja líkamlega getu, jafnvægi og liðleika en þroska líka einbeitingu, styrkja sjálfsmynd og kveikja í ímyndunarafli og sköpunargleði.

Við munum húlla, djöggla slæðum, boltum og hringjum, leika okkur að blómaprikum og sveiflusekkjum, læra sirkusfimleika og akró, láta eins og alvöru trúðar, vagga á veltibrettum, halda jafnvægi á töfrafjöðrum, leika kúnstir með kínverska snúningsdiska og í þetta skiptið fáum við líka að prófa alvöru loftfimleika í silki! Áhersla er lögð á sköpunargleði, samvinnu og það að þáttakendur uppgötvi eigin styrkleika. Í lok námskeiðs setjum við saman litla sýningu og bjóðum fjölskyldu og vinum í heimsókn að sjá okkur leika listir okkar. Eftir sýninguna gefum við svo áhorfendum færi á að prófa með ungu listamönnunum og Húlladúllunni ýmsar sirkuskúnstir.

Kennt verður dagana 23. til 27. júlí frá klukkan 10 til klukkan 14:30. Verð 15.000, 10% systkinaafsláttur, 22.5 klst. alls. Húlladúllan veitir nánari upplýsingar í tölvupósti: hulladullan@gmail.com, á Facebook og í síma 612 2727

Húlladúllan, eða eða Unnur María Máney, er sjálfstætt starfandi sirkuslistakona sem smitaðist af sirkusbakteríunni í Mexíkó. Hún hefur m.a. unnið fyrir Sirkus Íslands og breska sirkusinn Let’s Circus. Hún hefur langa reynslu af kennslu sirkuslista og lærði til húllakennara við Live Love Hoop í Brighton. Hún er stofnmeðlimur Akró Ísland og Reykjavík Kabaretts og hluti af Drag-Súgur kabaretthópnum. Hún hefur sérstaklega gaman af því að vinna með blandaða aldurshópa og fjölskyldur og það skemmtilegasta sem hún veit er að sjá svipinn á fólki þegar það uppgötvar að það geta allir lært töff sirkustrix.

2018-06-06T13:18:13+00:00