Vissuð þið að á fjölskyldegi Eldsins mun kenna ýmissa grasa? Já jú, sennilega vissuð þið það. En þessi grös sem ætla að kenna þar eru allskonar.

Laugardagur hátíðarinnar er hinn eiginlegi fjölskyldudagur hennar. Þar eru ýmsir viðburðir, s.s. Eldraunin, prjónakeppni, kaffihlaðborð, fótboltaleikur, prjónapartý, Papaball…
Eigum við ekki bara að fara aðeins yfir daginn?

Sko.
Ljósmyndasýning Fl(j)óð opnar kl. 10:00 í Íþróttamiðstöð Húnaþings vestra. Bara um leið og íþróttamiðstöðin opnar.
Svo kl. 11:00 þá hefjast tveir viðburðir; annars vegar prjónakeppni í VSP og hins vegar Eldraunin 2023. Við höfum sagt aðeins frá prjónakeppninni en Eldraunin er keppni sem Kraftlyftingadeild Kormáks (KDK) stendur fyrir. Keppt verður í ýmsum greinum í karla- og kvennaflokki, og hlýtur sterkasta fólkið titlana „Sterkasti karlinn“ og „Sterkasta konan“ á Eldi í Húnaþingi 2023. Hámark 8 keppendur í hvorum flokki og 16 ára aldurstakmark.
Klukkan 12:00 hefst svo einskonar fjölskyldudagskrá fjölskyldudagsins. Höfum við sagt fjölskyldu? Lalli töframaður mun vera með eitthvað sprell og halda utan um dagskrána. Svo verður útimarkaður, Partýkerran mætir, sem og Veltibíllinn, Sirkus Íslands verður með sýningu, Dj Heiðar sér um tónlistina, klifurveggur, Futzal, blöðrusnúningar… Hérna já. Er þetta ekki alveg ljómandi bara?
Í VSP húsinu verður svo veglegt kaffihlaðborð sem hefst kl. 14:00. Verð á það er 2.000 kr. fyrir fullorðna, 1.000 kr. fyrir 12-16 ára og frítt fyrir yngri.
Strákarnir í Kormáki Hvöt taka svo á móti KFS í knattspyrnuleik á Hvammstangakvelli kl. 15:30. Frítt inn og allt.
Selasetur Íslands er með sína aukaopnun líka á þessum degi, frá kl. 18:00 til kl. 22:00.
Næstsíðasti viðburður dagsins er prjónapartý í Stúdíó Handbendi. Aldrei of mikið af prjóni höfum við heyrt. Þessi viðburður hefst kl. 21:00.
Laugardeginum er svo lokað með balli með Pöpum, sem tryllir lýðinn. Það er hægt að kaupa miða á eldurihun@gmail.com, en líka við hurð ef það er enn pláss. Verðið er 4.900 kr., aldurstakmark 18 ár og Eldsbarinn á staðnum. Og já, þetta hefst kl. 23:00.

Náðuð þið andanum við að lesa þetta?