Það er ekki lítið að gerast í dag á Eldi í Húnaþingi. Sem er ótrúlegt, af því að það var alveg ferlega skemmtilegt í gær. Má þetta bara marga daga í röð?

Nú.

Hér kemur smá upptalning á dagskrá dagsins og við viljum endilega biðja fólk um að koma henni sem víðast, því þar koma fram staðsetningar og þess háttar. Hvað varðar ítarlegri viðburðaupplýsingar, þá má finna þær undir liðnum Dagskrá hér á vefnum.

KrakkaZumba með Guðrúnu Helgu heldur áfram í Grunnskóla Húnaþings vestra. Klukkan 10:00 eru það 6-9 ára krakkar og kl. 11:00 mæta 10-13 ára krakkar. Eitthvað hefur sést til krakka leita að Zumba í félagsheimilinu. Muna bara að það er í skólanum.

Tónlistarsmiðja með Valgerði Jónsdóttur söngkonu og tónmenntakennara í Félagsheimilinu á Hvammstanga, neðri hæð. Smiðjan er fyrir 3-7 ára krakka, ásamt foreldrum. Tónlistarsmiðjan er reyndar háð skráningu og fullt er á báðar tímasetningar. Fyrri tímasetningin er kl. 11:00 og sú síðari kl. 13:00.

Í VSP húsinu verður spiluð félagsvist og púkk kl. 13:00. Það verður einnig hægt að læra hvernig púkk er spilað, fyrir þá sem ekki þekkja til.

Slackline Iceland er eitthvað bráðskemmtilegt fyrirbæri sem snýst um að læra að labba á línu. Ekki línu á gangstéttinni sko. Nei nei. Meira svona „í loftinu“. Það verður hægt að prófa það kl. 14:00. Staðsetningin er á „mjólkurstöðvartúninu“.

Eldsmótið í borðtennis verður í Íþróttamiðstöð Húnaþings vestra kl. 15:00 og Eldsmótið í brennó/skotbolta verður á sama stað kl. 16:00. Það er alltaf mikið fjör og keppnisskap á þessum viðburðum, svo þetta getur ekki klikkað.

Púttmótið Flemming Open fer svo fram kl. 16:00 á púttvellinum við heilsugæsluna á Hvammstanga. Ekkert þátttökugjald, bara mæta.

Brunaslöngubolti verður svo á „mjólkurstöðvartúninu“ kl. 17:00 og þar verða góðgætis verðlaun í boði fyrir sigurvegara. Ef þið eruð ekki búin að skrá liðið ykkar, þá endilega hendið línu á eldurihun@gmail.com hið snarasta. Liðsmenn þurfa að vera 14 ára og eldri, hlutföll kynja nokkuð jöfn og 6 leikmenn inná í einu.

Svo er jafnvel hægt að slaka á eftir þann hasar og skella sér í Kalda bjórjóga kl. 18:00 í Félagsheimilinu á Hvammstanga. Ljómandi núllstilling fyrir kvöldið.

Jón Sig. heldur uppi fjörinu á brekkusöng í Kirkjuhvammi kl. 20:00. Staðsetning eins og síðast, í brekkunni við fótboltavöllinn. Spáin er ljómandi góð fyrir kveldið skv. Blika.is. Hitastig í kringum 13 gráður, glampandi sól og BARA ÞRÍR METRAR Á SEKÚNDU AÐ NORÐAN. Þeir sem vilja hafa vaðið fyrir neðan sig gætu komið með teppi með sér. Verðandi 10. bekkur selur svo pylsur á brekkusöngnum, svo það þarf ekki einu sinni að elda! Posi á staðnum.

Kvöldinu verður svo slúttað með tónleikum með Greifunum í Félagsheimilinu á Hvammstanga. Tónleikarnir hefjast kl. 22:00 og Eldsbarinn verður á staðnum. Aldurstakmarkið er 18 ár og tónleikarnir eru svona standandi tónleikar, svo það er hægt að dilla öllum útlimum þess vegna. Verð á tónleikana er 3.900 kr.