Sko. Það verða allskonar íþróttir og leikir í boði. Spurning hvað við viljum flokka undir þessa flokka. Vinsmakkanir gætu jú verið íþrótt. Gætu það. Jú víst.
Við ætlum samt ekki að skella þeim undir það. Eitt af því sem er svo sannarlega íþrótt er pílukast.

Pílufélag Hvammstanga stendur fyrir Unglistarmóti í pílukasti annars vegar og hins vegar grunnnámskeiði og Unglistarmóti unglinga í pílukasti. Þessu bryddaði Pílufélagið líka uppá árið 2022 og tókst svona líka svakalega vel. Hátíðinni verður þjófastartað með þessum viðburðum á þriðjudeginum á neðri hæð Félagsheimilisins á Hvammstanga.

Grunnnámskeið í pílukasti – Unglistarmót unglinga
Þetta námskeið verður fyrir krakka á aldrinum 13-18 ára og hefst kl. 16:00.
Strax í kjölfarið verður svo haldið mót sem veitt verða verðlaun fyrir.

Skráning er í gegnum tölvupóst, pilufelaghvammstanga@gmail.com, eða í skilaboðum á Facebook þar sem fram þarf að koma nafn og aldur.

Unglistarmót í pílukasti
Alls eru 32 pláss á mótinu og í fyrra fylltist skráning á sólarhring. Nú þegar eru aðeins 16 laus pláss eftir, svo það er vissara að hafa hraðar hendur. Ef skráning fer jafn vel af stað og árið 2022, þá skoðar félagið að fjölga sætum. Skráning fer fram hér.
Þátttökugjald er 3.500 kr. og mun þátttökugjaldið renna óskipt til tveggja kvenna á Hvammstanga sem berjast nú við krabbamein.

Skráning er hafin hér og lýkur skráningu þremur klukkustundum fyrir mót. Húsið opnar kl. 18:00 en mótið hefst kl. 19:30. Frábær verðlaun verða veitt fyrir efstu þrjú sætin ásamt fyrsta 180 og eru verðlaunin í boði pílufélagsins og Sjávarborgar.
Sjá einnig hér.