VSP húsið verður viðburðarstaður ýmissa viðburða á Eldi á Húnaþingi. Ekki í fyrsta sinn og vonandi ekki það síðasta. Það er alveg stórskemmtilegt hús með áhugaverða sögu.

Þar verður til dæmis heimsmeistaramót á fimmtudeginum. Með stóru H-i í orði en litlu á neti. Þið kannist öll við þetta heimsmeistaramót. Heimsmeistaramót í Kínaskák. Spiluð verður einstaklingskeppni þannig að það þarf ekki að vera skráð lið. Veitt verða verðlaun fyrir fyrsta, annað og þriðja sæti. Og já, þetta hefst kl. 15:00.

Kínaskák er ekki eina spileríið sem verður í VSP húsinu, en Félagsvist verður á föstudeginum kl. 13:00. Um er að ræða parakeppni þar sem veitt verða verðlaun fyrir 3 efstu sætin, auk setuverðlauna. Skráning á staðnum.

Keppnin heldur svo áfram á laugardeginum, en þá er kvæði undið í kross og farið lóðbeint í prjónakeppni.

Að ógleymdu því að á fimmtudegi og föstudegi verður kaffihúsastemmning þar sem hægt verður að kaupa kaffi og „meððí“. En sko, haldið ykkur fast. Á laugardeginum verður sú stemmning með einhverju konunglegu ívafi, eða það ímyndum við okkur við þessi rituðu orð undir óð garnagauls. Þá verður nefnilega skellt í kaffihlaðborð frá kl. 14:00. Alveg grunar okkur að kökuborðið eigi eftir að svigna undan kræsingum. Verð fyrir þau herlegheit eru 2.000 kr. fyrir þau fullorðnu, 1.000 kr. fyrir 12-16 ára og frítt fyrir þau yngri.