Eldraunin 2024 er viðburður á vegum Kraftlyftingadeild Kormáks – KDK sem margir eru eflaust að bíða eftir. Það er bæði hrikalega gaman að taka þátt og að horfa á. Keppnin verður háð á laugardeginum við Félagsheimilið á Hvammstanga
Keppt verður í drumbalyftu, öxuldeddi, bóndagöngu og steinatökum. Ef til bráðabana kemur þá verður þar kept í útréttu.
Reglur:
– Í keppnina er 16 ára aldurstakmark.
– Hámark keppenda í hvorum flokki eru 8 keppendur.
– Leyfilegt er að hoppa inn í keppnina ÁÐUR en fyrstu grein lýkur. Eftir að önnur grein byrjar er lokað fyrir skráningar.
– Í fyrstu grein verður röð keppenda af handahófi (notað „app“ á netinu til að ákvarða). Eftir fyrstu grein ræður árangur keppenda í greininni á undan röðinni. Þ.e. að síðasta sætið í 1. grein byrjar þá næstu grein og sá sem vann 1. grein fær þá að fara síðastur í næstu grein.
Greinar:
1) Drumbalyfta
Konur með 30kg og karlar 70kg. Lyfta eins oft og hægt er frá jörðu upp fyrir haus á 60 sekúndum.
2) Öxuldedd (þykkt handfang sem snýst ekki)
Konur 80kg, karlar 120kg. Eins margar lyftur og hægt er á 60 sekúndum.
3) Bóndaganga
Konur með 50kg í hönd (samtals 100kg) og karlar 80kg í hönd (samtals 160kg). Gengin ákveðin vegalengd og hraðasti tíminn vinnur. Má missa lóðin og halda samt áfram þar til brautin klárast.
4) Steinatök
Karlar og konur lyfta fjórum steinum. Eftir að ákveða þyngdir, en konur verða líklegast á bilinu 23 til 91kg og karlar 45 til 120kg (eða 132kg).
Bráðabani:
Ef keppendur um verðlaunasæti enda jafnir á stigum þá er sætið útkljáð með útréttu. Þ.e. að halda fram lóðaplötu eins lengi og hægt er. Konur fá 10kg lóð og karlar 20kg.
Þið getið fylgst með nýjustu tíðindum varðandi keppnina á viðburðarsíðu hennar á Facebook, með því að smella hér.