Föndurstund verður í boði á hátíðinni fyrir krakka á aldrinu 4-8 ára. Það eru þær Jóhanna Helga og Herdís sem stýra því á fimmtudeginum í Félagsheimilinu á Hvammstanga. Annars vegar verður föndurstund kl. 10:00-11:00 og hins vegar kl. 12-13:00. Í þessar föndurstundir þarf að skrá sig. Það er aaaafar mikilvægt. Og það er hægt að gera hér. Annað sem er mikilvægt er að foreldrar/aðstandendur yngstu barnanna eru hvattir til að fylgja þeim.
Núgh. Annað sem við viljum vekja athygli á er prjónakeppnin sem verður í VSP húsinu á laugardeginum kl. 11:00. Já, það verður keppt í prjóni. Það er alveg hægt að keppa öllu, ef viljinn er fyrir hendi. Sko. Förum aðeins yfir þetta. Þrír eru saman í liði og það þarf ekki að koma með tilbúið lið, heldur verður hægt að mæta hálftíma fyrr og mynda lið þá. Búið verður að fitja upp á og tengja í hring – allt tilbúið til að vinda sér beint í að prjóna. Hver einstaklingur prjónar í 5 mínútur. Það lið sem nær lengsta bútnum sigrar. Veitt verða verðlaun fyrir fyrsta, annað og þriðja sæti.
Árið 2022 kepptu sjö lið í prjónakeppninni og stemmningin var frábær. Þetta er skemmtilegur leikur og það væri frábært að fá fullt af ungum prjónurum á öllum aldri.
Það eru líka skráningar í prjónakeppnina og það skal gert hér.
Erum við þá ekki bara góð, þangað til næst?