Sko. Nei, við erum ekki búin að birta dagskrána – en þið þekkið nú suma dagskrárliði sem hafa verið svo til fastir frá ári til árs.
Það er nefnilega sniðugt að fara að huga að því hvað væri sniðugt að skrá sig í. Nú, eða safna í lið.

Þið þekkið til dæmis Melló Músíka. Það er nú heldur betur fastur liður fimmtudagsins, sem felst í að fara upp á svið og flytja tónlist á melló máta.
Það má endilega húrra inn skráningum á þar til gert form – hér.

Pílufélag mun þjófstarta hátíðinni, eins og í fyrra, með pílukasti á þriðjudeginum og skráningar í það eru í skilaboðum á Facebook-síðu þeirra eða á pilufelaghvammstanga@gmail.com. Félag heldur sum sé Unglistarmót og er líka með kennslu fyrir 13-18 ára.

Svo er dálítið nýtt af nálinni að það verður skákkennsla í boði fyrir 1.-4. bekk á fimmtudeginum og þar þarf að skrá sig. Það er nú bara gert með því að smella hér.

Svo verður föndurstund fyrir 4-8 ára á fimmtudeginum og þar þarf líka að skrá sig. Skráningar í það eru hér.

Svo er eitt. Sko fyrir þessi fullorðnu. Og það er líka svolítið nýtt. Kampavínssmökkun og rauðvínssmökkun á föstudeginum. Og já, skráningar í það hér: rauðvínssmökkunkampavínssmökkun.

 

…. jiminn. Það þarf næstum því hlé hér. 

 

Brunaslönguboltinn verður á sínum stað á fimmtudeginum og þar fer skráning fram hér. Þið munið bara að þar þarf að safna í lið, 6 í hverju liði sem eru inná í einu.

Eldraunin hjá Kraftlyftingadeild Kormáks er að sjálfsögðu í ár og þar er hægt að skrá sig með því að senda skilaboð á Facebook-síðu þeirra.

Svo eru það sölu-/sýningarborð á útimarkaði laugardagsins. Ókeypis sko. Ef þú vilt, þá hendirðu línu á eldurihun@gmail.com.

Ekki má heldur gleyma prjónakeppninni á laugardeginum, í VSP húsinu. Þrír í liði og svona. Skráningar í þá keppni fara fram hér.

 

Þar fyrir utan þá verða viðburðir sem þarfnast ekki fyrirfram skráninga – en miklu meira um það síðar!