Verði ljós! Dagsins ljós.
Ef þið misstuð af því þá hafa einhverjir viðburðir verið birtir hér á vefnum og svo mun bæta í þessa upptalningu næstu daga. Það er því vissara að vera á tánum. Þarna er t.d. komið aðeins inn um setningarhátíðina, tónlistarbingó, Heimsmeistaramót í Kínaskák, upplestur með Gunna Helga og Felix, brekkusönginn með Jóni Sig, Stuðlabandið og svo útimarkaðsupplýsingar.
Það eru nefnilega akkúrat tvær vikur í hátíðina. Hvorki meira né minna en tuttugasta hátíð Eldsins. Hátíð sem hófst með hugviti og framkvæmd ungs fólks í Húnaþingi vestra. Sjálfboðavinna alla leið – 100% – sama í hvaða horn var litið. Hugsaðu þér bara ef þessi áræðni hefði ekki verið til staðar. Í dag hefur þetta undið uppá sig og orðið að stærri hátíð. Fastir styrktaraðilar hafa komið um borð í lestina en það er samt svo að sjálfboðavinna er það sem gerir þessa hátíð og hún er enn í dag gríðarlega stór partur af allri vinnu í kringum hátíðina. Það er því alls ekki gefið að hægt sé að halda hátíð sem þessa frá ári til árs. Nýliðun er mikilvæg í þeim efnum og nauðsynleg til að halda hátíðinni gangandi næstu árin. Í ár er það hún Þórunn Ýr Elíasdóttir sem er höfuð hátíðarinnar og jafnframt nýliði í því. Við tökum því fagnandi.
En já. Viðburðir. Gjöriði svo vel!