Jæja jæja. Ekki seinna vænna að kynna sér dagskrá dagsins í dag.
Hún byrjar á tveimur viðburðum kl. 10:00.
Annars vegar er það föndurstund fyrir krakka á aldrinum 4-8 ára sem verður á neðri hæð Félagsheimilisins á Hvammstanga. Það er viðburður sem krafist var skráningar á, svo það ætti allt saman að vera klappað og klárt.
Hins vegar er það KrakkaZumba fyrir 6-9 ára krakka sem verður í matsal Grunnskóla Húnaþings vestra.
Svo taka við tveir viðburðir kl. 11:00.
Það er Tröllabrúðunámskeið sem er vinnustofa leidd af Gretu Clough. Það verður í húsnæði Handbendi að Eyrarlandi.
Svo er aftur KrakkaZumba í matsal Grunnskóla Húnaþings vestra, en að þessu sinni er það fyrir krakka á aldrinum 10-13 ára.
Föndurstund er svo aftur á neðri hæð Félagsheimilisins kl. 12:00 og það er sama og með þá fyrri, skráningar var krafist.
Klukkan 13:00 er svo best að vippa sér lóðbeint í VSP húsið, en þar fer fram Heimsmeistaramótið í Kínaskák – hvorki meira né minna.
Gunni Helga og Felix verða svo með upplestur úr Ævintýri Freyju og Frikka kl. 14:00 í safnaðarheimili Hvammstangakirkju. Það er ætlalðl fyrir 0-13 ára í fylgd með foreldrum.
Tröllabrúðunámskeið er svo aftur á ferð kl. 15:00 í húsnæði Handbendi að Eyrarlandi.
Á sama tíma er svo Óskabrunnur í Félagsheimilinu á Hvammstanga. Það er ætlað öllum aldri og fyrir þá sem vilja bæta smá töfrabragði í lif sitt.
Gunni Helga og Felix verða svo aftur á ferðinni kl. 17:00 en að þessu sinni mið fjölskylduskemmtun í Íþróttamiðstöð Húnaþings vestra.
Síðasti viðburður dagsins er svo Melló Músika í Félagsheimilinu á Hvammstanga, sem hefst kl. 21:00. Þar mun heimafólk stíga á stokk og flytja þægilega tónlist, að mestu.